news

Hrekkjavökupartý Holtakots

03. 11. 2020


Hrekkjavakan hefur verið að ryðja sér til rúms á Íslandi undanfarin ár eins og flestir vita, enda fleiri og fleiri sem eru farnir að taka þátt í þessum skemmtilega sið. Á Holtakoti var þessi dagur haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn þetta árið með mikilli gleði barnanna. Enda ef ekki er tilefni til að breyta til og hafa gaman þessa dagana hvenær þá spyrjum við nú bara!

Leikskólinn var skreyttur í hrekkjavökustíl með aðstoð starfsfólksins sem hengdi upp köngulóavefi og allskyns óværur um allan leikskóla og það fyrsta sem tók á móti börnunum þegar þau mætti í leikskólann voru graskersluktir sem búið var að skera út og stilla upp fyrir utan deildarnar, sem vöktu ekki síður lukku hjá foreldrum en börnunum.

Börnin á eldri deildunum föndruðu grasker og drauga sem voru hengd upp á veggi og út í glugga svo að foreldrar fengu örlýtið sýnishorn af því sem leikskólinn hafði að geyma þennan dag.

Þau fengu einnig að setja blóðug handaför í gluggana til þess að gera þetta enn meira hrekkjavökuvænt og skemmtilegt.

Börnin á mýri bjuggu til grasker úr pappadiskum sem voru svo hengd í fataklefann hjá þeim undir köngulóarvef og risastórri loðinni könguló eins og sjá má á myndinni.

Börnin á Seylu bjuggu líka til grasker en graskerin þeirra voru búin til úr handafarinu þeirra enda fátt krúttlegra en lítil handaför í listaverki.

Salurinn var svo skreyttur í hólf og gólf af snillingunum í eldhúsinu okkar en þar mátti finna allskyns verur eins og litla og stóra drauga, blóðug handaför á gluggum, köngulær í vefum og fleira sem tilheyrir slíkum degi.

Þar sem að leikskólanum okkar er skipt í tvö hólf var ekki hægt að hafa alla saman á balli í salnum. En við létum það nú ekki stoppa okkur í að halda okkar striki og hafa partý. Yngri börnin hittust inni á Mýri þar sem þau dönsuðu og skemmtu sér saman.

Þegar búið var að dansa og hafa gaman í góða stund settust börnin niður í rólegheitum og fengu sér melónubita í tilefni dagsins.

Á eldri deildunum var örlítið meira húllumhæ enda börnin orðin eldri og meðvitaðri um hrekkjavökuhátíðina og finnst auðvitað mjög spennandi að fá að mæta í búning í leikskólann. Í salnum var búið að koma fyrir ljóskastara með diskóljósum og hátalara með tónlist og svo var dansað og hamast eins og enginn væri morgundagurinn.

Börnin fengu öll mynd af sér með beinagrindar-drauginum sem hékk fyrir framan hurðina inn á Tröð og fannst það heldur betur spennandi þó hann hafi nú ekki beint verið fagur, en börnin kipptu sér nú ekki mikið upp við það og fannst hann bara flottur.

Eftir allt stuðið í salnum fengu börnin á eldri deildinni popp í poka og vatnsglas áður en þau fóru aftur inn á deildarnar sínar. Börnin sátu svo annað hvort inni á deild eða í fataklefanum og slökuðu á eftir allt fjörið áður en þau fóru aftur að leika sér.

Börnin voru heldur betur kát með þessa gleði enda ekki á hverjum degi sem maður fær popp í leikskólanum.

En gleðin var ekki á enda þó að partýið í salnum væri liðið hjá, aldeilis ekki. Börnin fengu að leika sér í búningunum allan daginn inni á deildum og í nónhressingunni buðu eldhúskonurnar okkar upp á hrekkjavöku-skúffuköku með appelsínugulu, glimmer kremi sem vakti mikla lukku hjá börnunum. Ekki nóg með að þær höfðu bakað köku heldur voru þær búnar að föndra hrekkjavökuepli fyrir börnin sem þau fengu að taka með sér heim í lok dags.

Dagurinn var heldur betur vel heppnaður að allra mati. Börnin fóru kát og glöð inn í helgina og starfsfólkið sömuleiðis. Við komum klárlega til með að endurtaka leikinn að ári....og hver veit kanski verður enn meira lagt í daginn þá.

© 2016 - 2021 Karellen