news

Minni matarsóun og alsælar hænur

12. 11. 2020

Grænfánaverkefni Landverndar er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem börn og starfsfólk á Heilsuleikskólanum Holtakoti taka þátt í. Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntaverkefni sem er rekið af Landvernd á Íslandi. Verkefnið á að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.

Á Holtakoti flokkum við allt rusl sem tilfellur, þar með talið lífrænt og reynum eftir bestu getu að nýta það sem hægt er að nýta. Við erum með endurvinnslutunnur á öllum deildum og í miðrými leikskólans. Stóru tunnurnar utandyra eru vel merktar fyrir pappa, almennt rusl og lífrænan úrgang. Aðeins lítill hluti af lífrænum úrgangi fer þó í tunnuna þar sem að nánast allir matarafgangar eru flokkaðir sér og notað sem fóður fyrir hænurnar hennar Ragnhildar leikskólastjóra. Þetta hefur verið gert frá því að leikskólinn opnaði 2006 og enn í dag fá hænurnar að njóta matarafganga frá leikskólanum svo að það er fátt sem fer til spillis dags daglega. Hænurnar dafna vel á þessu lúxus fæði og framleiða dýrindis egg fyrir eigendur sína og starfsmenn sem fá oft að njóta og í leiðinni erum við að minnka matarsóun.


Eldhúskonurnar tóku sig til og vigtuðu allt sem fór í hænurnar í ca 2 vikur í tilraunaskyni til þess að athuga hversu mikið af lífrænu sorpi færi frá leikskólanum ef ekki væri fyrir hænurnar. Á þessum tveimur vikum var það einungis um helmingurinn af lífræna sorpinu sem fór í tunnuna hjá okkur á meðan hinn helmingurinn fór í hænurnar. Við fengum svo hrós frá manninum sem sér um að losa lífrænu sorptunnuna okkar fyrir hversu lítið af lífrænu sorpi væri að fara frá okkur og að það væri töluvert minna en gengur og gerist á stofnunum sem þessari.

© 2016 - 2021 Karellen