news

Ruslatýnsla og sullufjör

16. 07. 2021

Sumarstarfið er í fullum gangi hjá okkur á Holtakoti. Þó að veðrið sé nú ekki alltaf upp á tíu með sól og brakandi blíðu (þó að við myndum nú alveg vilja það), þá erum við búin að vera dugleg að vera úti að leika og bralla ýmislegt skemmtilegt.

Þriðjudaginn 13. Júlí fengu börnin á Tröð og Hliði að mála í útiverunni með vatnsmálningu, þar fæddust hin litríkustu listaverk sem börnin fengu svo að taka með sér heim í lok dags.Á meðan fóru yngri börnin á Mýri og Seylu í göngutúr á Vesturtúnsróló. Allir voru vel klæddir í pollagalla og stígvél og kvörtuðu ekkert þó að það rigndi svolítið á þau, enda er enginn verri þó hann vökni ekki satt?

Börnin á Hliði og Tröð fóru svo í göngutúr miðvikudaginn 14. Júlí á leikvöllinn hjá Bjarnastöðum í smá bleitu en létu það ekki á sig fá, enda vön að vera úti í allskonar veðráttu á meðan fóru litlu börnin í útiveru í leikskólagarðinum.

Fimmtudaginn 15. Júlí fóru yngri börnin aftur í gönguferð. Á leiðinni heilsuðu þau upp á hesta og enduðu svo á að skoða steina, sand, blóm og sjóinn í fjörunni.


Eldri börnin nýttu útiveruna og hreinsuðu nærumhverfið okkar með því að týna rusl á og í kringum leikskólalóðina. Það vakti svo mikla kátínu barnanna þegar sorpbíllinn kom til að tæma sorptunnurnar okkar og bílstjórinn var svo frábær að leyfa börnunum að aðstoða sig við að ýta tunnunum og opna hliðið fyrir sig. Börnin fylgdust svo spennt með þegar tunnurnar voru tæmdar í bílinn.Það er mikil spenna komin í elstu börnin okkar sem eru að fara í skóla næsta haust og eru flest að hætta eftir þessa viku, þá er nú gott að geta fengið þessa vösku krakka til að aðstoða kennarana með hin ýmsu verkefni, eins og að setja saman barnastóla fyrir yngstu deildarnar og fara svo með ruslið í réttar endurvinnslu tunnur að því loknu.

Föstudagurinn 16. Júlí er runninn upp, síðasti dagur vikunnar, þá skellum við í góða skemmtun í rigningunni, tökum fram pollagallana og drögum brunaslönguna út í garð. Sulludagur varð fyrir valinu í útiverunni í dag. Börnin fengu skóflur og fötur til að búa til drullukökur, fengu vatnsgusur yfir sig og renndu sér meira að segja í gegnum bununa í stóru rennibrautinni og að lokum fengu þau svo að prufa að sprauta með brunaslöngunni. Þetta var heilmikið fjör og allir sælir og kátir eftir útiveruna.


Í hádeginu fengu börnin svo heitan grjónagraut og brauð og í kaffinu var boðið upp á pönnukökur og mjólk, þvílík veisla, góður endir á geggjaðri viku.

© 2016 - 2021 Karellen