news

Vetrarstarfið komið á fullt

08. 09. 2020

September er hafinn og þar með er skólastarfið hafið á nýju skólaári með öllum þeim verkefnum og viðfangsefnum sem því fylgir. Hreyfistundirnar í salnum eru byrjaðar aftur eftir frí og allir eru búnir að fara allavegana einu sinni í þrautabraut í salnum. Gönguferðirnar eru komnar aftur á dagskrá og ætla deildarnar að taka frá einn dag í viku þar sem farið er í gönguferð í næsta nágrenni við leikskólann. Elstu börnin byrjuðu í sundkennslu með Moniku og Sæu pæju þar sem þau fara m.a. í verkefni tengd Leikur að læra fyrir utan að læra að bjarga sér í sundinu áður en þau fara frá okkur yfir í grunnskólann.

Litlu krílin á Seylu fóru í fyrstu gönguferðina í morgun, þann 8. september, og kíktu á hestana sem eru í næsta nágrenni við okkur, þeim þótti hestarnir mjög spennandi. Fleiri gönguferðir eru á dagskrá og hver veit nema þau fái að kíkja á dýrin í hesthúsunum hjá Ragnhildi leikskólastjóra en þar er að finna hænur, kanínu, kött og hesta og svo fara kindurnar bráðlega að koma í hús sem gaman væri að kíkja á.

Krílin á Mýri eru búin að vera svakalega dugleg síðustu daga. Þau eru m.a. búin að prufa að fara í hringekju, fara í salinn að leika og fara í tvær gönguferðir. Í fyrstu ferðinni fóru þau út á skólalóð Álftanesskóla, en seinni ferðin var örlítið lengri en sú fyrri. Mánudaginn 7. sept fóru þau alla leið á leikvöllinn við Vesturtúnið og stóðu sig eins og hetjur. Þau ætla að æfa sig að fara í lengri ferðir eftir því sem líður á veturinn.

Á Hliði er ávallt líf og fjör og nóg um að vera. Þau skelltu sér í gönguferð í morgun og héldu út í fjöru í þetta skiptið.

Á Tröð er líka ávallt líf og fjör í tuskunum og nóg um að vera með alls kyns verkefnum og viðfangsefnum á hverjum degi. Þau skelltu sér í gönguferð á leikvöllinn við Vesturtún eftir hádegismatinn í dag, 8. sept.

Elstu börnin hefja svo verkefni sem tengjast undirbúningi fyrir skólabyrjun núna í september en helstu verkefnin eru t.d. stærðfræði og læsi svo eitthvað sé nefnt.

Við hlökkum til að takast á við verkefni vetrarins með öllum aldurshópum á öllum deildum.


© 2016 - 2020 Karellen